Að kaupa hest

Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta

Hestamennska er lífsstíll, ekki áhugamál. Hestar eru ekki eins og mótorhjól eða golfsett, sem hægt er að setja inn í skúrinn og taka fram á tyllidögum. Að eiga hest er vinna, alla daga vikunnar, alla daga ársins. Að þessu sögðu langar mig að tala um þá ákvörðun að kaupa sér hest. Að mjög mörgu er að hyggja og ýmislegt sem drepið verður á hér, hentar ekki öllum. En gott er að velta þessum hlutum fyrir sér í rólegheitum og taka það út sem vekur áhuga og umhugsun.

Áður en farið er í það að skoða vænlegan hestakost er vert að spyrja sig eftirfarandi spurninga. Svara þeim í einrúmi heiðarlega og gagnrýnið. Að því loknu er hægt að leita sér ráða viturra manna eða kvenna.

– Hvernig hestamaður er ég? Er ég byrjandi eða vanur/vön? Á ég hesta fyrir? Er fjölskylda mín með í hestamennsku? Er ég að kaupa hest fyrir barnið mitt/unglinginn minn? Er ég tilbúin/n til að vera ábyrgi aðilinn í því samhengi? Vil ég stunda vetrarreiðmennsku og hvíla á sumrin? Eða öfugt? Eða bæði? Langar mig að eignast keppnishest? Ferðahest? Almennan útreiðahest? Ótaminn eða taminn hest? Hversu vel/mikið taminn? Hversu mikinn tíma hef ég til að stunda þessa íþrótt?
– Hef ég aðgang að hesthúsi? Þarf ég að hirða og gefa? Eða þarf ég að kaupa þá þjónustu? Þarf ég að kaupa hey og fóður?
– Hef ég aðgang að hagabeit? Þarf ég að sjá um hagabeitina, girðingarvinnu, ástand hagans o.s.frv? Hef ég möguleika á því að fylgjast með hestinum/hestunum mínum í haga? Kippt honum/þeim inn með litlum fyrirvara?
– Á ég reiðtygi? Annan útbúnað?
– Hef ég aðgang að hestaflutningum?
– Hef ég aðgang að járningamanni? Allan ársins hring?
– Vil ég láta aðstoða mig við þjálfun hestsins? Fara á námskeið?
– Hef ég aðgang að dýralækni? Allan sólarhringinn ef þarf, eða bý ég fjarri dýralæknaþjónustu? Get ég veitt mér þann „munað“ að borga fyrir dýralæknaþjónustu?
– Hef ég möguleika á því að tryggja hestinn/hestana mína?
– Langar mig að vera meðlimur í hestamannafélagi?

Eins og gefur að skilja leiða þessar spurningar líkum að því að hestamennska er dýr íþrótt. Og ekki endilega möguleikar á að stytta sér leið. Það er nauðsynlegt að vera viðbúin/n óvæntum kostnaði og að takast á við vandamál áður en þau verða hestinum til vansa. Hesturinn þarf að njóta vafans, ekki þú.

Eftir þessar vangaveltur er fyrst hægt að fara að velta fyrir sér kaupum á hestinum sjálfum. Þar vandast málið oft á tíðum. Hestaviðskipti hafa löngum verið sveipuð dulúð og ýmsar óskrifaðar reglur. Í lokin er þetta vissulega handsal á milli seljanda og kaupanda og báðir bera vissa ábyrgð á viðskiptunum. En það er ýmislegt hægt að gera til að gera þessi viðskipti ánægjuleg fyrir báða aðila.

– Hvað er ég tilbúin/n til að borga fyrir hest? Það er ekki til neitt sem heitir „gangverð“ á hesti. Það sem einum finnst ódýrt, finnst öðrum nánast galið. En vert er að hafa í huga að það kostar að rækta hest, ala upp hest, og temja hest. Allt er þetta „grunnkostnaður“ sem seljandi er jafnvel búin/n að leggja mikið í. Það er töluverður munur að kaupa ótaminn hest, úr illa skilgreindri ræktun og að kaupa hest sem er mikið og vel taminn. Hvað það varðar er líka nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að hestar eru afskaplega misjafnir að geðs- og upplagi og það sem atvinnumaður getur náð úr hesti er alls ekki það sama og minna vanur getur náð úr honum. Þar þurfa menn að gera sér grein fyrir sínum takmörkunum. Eins erfitt og það getur verið.
– Kaupandi þarf að vera óhræddur að spyrja seljanda um hestinn. Fara yfir sögu hestsins, eigandaskipti, sjúkdómasögu og núverandi notkun. Þar þarf væntanlegur kaupandi líka að vera heiðarlegur við sjálfan sig og gera ekki óraunhæfar væntingar til sjálfs síns sem hestamanns og einnig til hestsins. Gott er að fá til sín óháðan aðila sem menn/konur bera traust til sem hefur ekki beina aðkomu að sölunni eða kaupunum.
– Vil ég láta söluskoða hestinn? Hvað er söluskoðun? Hvaða væntingar hef ég til þeirrar skoðunar? Söluskoðun er gríðarlega umdeild og heilu ráðstefnur dýralækna eru haldnar um hana. Á Íslandi er ekki til nein heildarstefna er varðar söluskoðanir. Þumalputtareglan á að vera sú að dýralæknir framkvæmir söluskoðun í umboði kaupanda. Auðvitað getur seljandi látið framkvæma söluskoðun og mikil hefð er fyrir því hér á landi. En í því samhengi verður að skilja að viðskiptin eru þá á milli dýralæknis og seljanda, ekki öfugt og trúnaðarsambandið er eftir því. Ef dýralæknir framkvæmir söluskoðun í umboði kaupanda er sambandið annað og væntanlegur kaupandi hefur meira rými til að mynda sér sjálfur skoðun um að kaupa hestinn með þeim göllum (ef einhverjir eru) sem fylgja með ráðleggingum dýralæknis. Í því samhengi er hægt að ákveða umfang söluskoðunar, hversu nákvæmlega hesturinn er metinn. Söluskoðun getur verið allt frá því að vera einföld heilbrigðisskoðun sem tekur stuttan tíma, út í það að vera mjög yfirgripsmikil og nákvæm, jafnvel tekið nokkra daga. Dýralæknir er ekki spámaður og hann getur aldrei vottað hest fyrir öllum göllum eða framtíðarvandamálum. Það segir sig sjálft, og nauðsynlegt er fyrir kaupanda að gera sér grein fyrir takmörkunum skoðunar. Hesturinn er vottaður fyrir þann dag sem hann er skoðaður og vottaður fyrir þeim atriðum sem eru skoðuð. Ef gallar koma í ljós á degi skoðunar má ræða þau atriði, hvort þau séu það alvarleg að hestur sé ekki söluvara á umtöluðum degi, eða hvort hann sé gallaður til frambúðar. Ef þetta er galli sem hægt er að lagfæra, má ráðleggja með það en þetta er alltaf áhætta sem kaupandi tekur og þarf að ákveða sjálf/ur. Hinsvegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að því nákvæmari sem söluskoðun er, því meiri líkur er á að eitthvað finnist. Það þurfa ekki endilega að vera hlutir sem verðfella hestinn eða hlutir sem seljandi hefur haft hugmynd um, en takmarkanir dýralækna að gefa „kristalkúlu“ spá eru miklar. Kostnaður söluskoðunar er að sjálfsögðu í samhengi við umfang hennar. Ef mikið er í húfi er sjálfsagt að fá annað álit dýralæknis á söluskoðun. Ekki skal krefja dýralækna um að „dæma“ á milli, heldur einungis að fá álitið. Kaupandi þarf alltaf að vera ábyrgur sinna kaupa.
– Ef kaup/skipti ganga í gegn er nauðsynlegt að ganga strax frá eigendaskiptum í Worldfeng. Ef hestur hefur ekki verið söluskoðaður er nauðsynlegt að huga að því að „réttur“ hestur sé keyptur, örmerki passi við keyptan hest og að milliganga sé hnökralaus. Það myndast oft „tómarúm“ á milli kaupanda og seljanda þar sem ýmislegt getur gengið á. En mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hestur er undir ábyrgð þess sem skráður er fyrir honum. Jafnvel þó viðskipti hafa gengið í gegn.

Að þessu sögðu er ekki vandalaust að kaupa sér hest. Hestur er ekki bíll eða hjól. En ýmislegt er að hægt að gera til að hesturinn sem keyptur er sé sannarlega draumahesturinn og að hann muni veita þér gleði og ánægju um ókomin ár. Kaupandi tekur lokaákvörðun og honum ber að skilja að spurningar sem eru ekki spurðar í kaupferlinu er ekki endilega hægt að krefjast svara við eftir að hestur er keyptur. Það þarf þá að vera samningsatriði á milli kaupanda og seljanda.

Ég óska ykkur góðra stunda í góða veðrinu með gæðingana ykkar.