Velferð hrossa á útigangi
Höfundur: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir
Íslenski hesturinn hefur lifað með íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær að njóta sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er grundvallarþörf hjá öllum hrossum en mikilvægust ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi.
Því er æskilegt að hross sem ekki eru notuð til reiðar séu haldin á útigangi og á það ekki síður við um folöld en önnur hross. Varasamt getur verið að hýsa fylfullar hryssur og mjög óheppilegt að hryssur kasti í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.
Helsti mælikvarðinn á velferð hossa á útigangi er holdafarið en auk þess er litið til hárafars, almenns heilbrigðis og upplits hrossanna. Óhjákvæmilegt er að fóðurskortur eða illur aðbúnaður komi með tímanum niður á holdafari og útliti hrossanna. Til að tryggja samræmt mat á holdafari hrossa hefur verið gefinn út holdastigunarkvarði sem unnið hefur verið eftir undanfarinn áratug og reynst vel.
Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notkunar. Þetta kallar á flokkun hrossa eftir fóðurþörfum þeirra en þær ráðast einkum af framleiðslu (vexti, fósturþroska, mjólkurframleiðslu) og holdafari. Mjólkandi hryssur og hross í vexti eru í hvað mestri þörf fyrir fóður á meðan fullorðin geldhross í góðum holdum þrífast vel af litlu. Engin krafa er um að síðastnefndi hópurinn standi í heyi enda leiðir það fljótt til offóðrunar. Óásættanlegt er þó að hross séu haldin í svelti, án þess að hafa nokkurn haga, þó það geti verið óhjákvæmilegt tímabundið á meðan stórviðri ganga yfir. Umráðamenn hrossa þurfa að fylgjast vel með veðurspám og gefa með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir slík áhlaup, þannig að hrossin séu ágætlega södd og hafi gagn af hitamynduninni sem verður við meltingu gróffóðurs, þegar veðrið skellur á. Þá þarf ekki að óttast að þau standi ekki af sér stórviðri enda eru afföll fáheyrð.
Hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni eða snjó. Bregðast þarf við í langvarandi frostatíð á snjólausri jörð eða hörðu hjarni og útvega hrossum vatn.
Í reglugerð um velferð hrossa er gert ráð fyrir að hross á útigangi hafi aðgang að skjóli allan ársins hring. Á það reynir ekki síst um vor og haust þegar hross eru ekki í fullum vetrarfeldi og allra veðra er von. Æskilegt er að hross á útigangi séu í landmiklum girðingum með beit og fjölbreyttu landslagi sem býður upp á náttúrulegt skjól, svo sem holt og hæðir, lautir, hvilftir, háa skurðruðninga, kletta og trjágróður. Þar sem hross eru haldin á berangri skal koma upp manngerðu skjóli.
Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi, svo sem hrossaskjóli, skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar svo sem fóðurástand, hárafar og annað heilbrigði, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu. Þar sem hross eru grönn (undir reiðhestholdum) skal gerð ríkari krafa um gæði hrossaskjóla, samhliða bættri fóðrun. Að sama skapi er krafan vægari ef hrossin eru í mjög góðu standi.