Grundvallarbreyting á kynbótadómum: Nú geta hross lækkað á yfirlitssýningum!

RML hefur nú tilkynnt að þær breytingar hafi verið gerðar á framkvæmd kynbótadóma, að nú geti hross ekki aðeins hækkað á yfirlitssýningum eins og  verið hefur um langt árabil, heldur einnig lækkað! Þetta á við um dóma fyrir vilja og geðslag. Jafnframt er tilkynnt að mat á vilja og geðslagi verði breytt.  Þetta verður að teljast stór frétt í öllu kynbótastarfi hrossa á Íslandi, og margir hrossaræktendur velta nú eðlilega fyrir sér hvort þetta sé byrjunin á einhverju öðru og meira, gæti til dæmis komið að því að hestur lækki fyrir skeið eða brokk ef sýning á þessum gangtegundum mistekst í yfirliti? Þá hafa margir hrossaræktendur og knapar einnig sagt í samtölum við Hestafréttir, að mjög slæmt sé að hringla sífellt með reglur um kynbótadóma, þær valdi ruglingi, geri samanburð milli ára ómarktækan og fleira í þeim dúr. Nærri árlega komi tilkynningar um breytingar á reglum, breytingar á vægi einkunna eða breytingar á ýmsum áherslumálum.

Hér á eftir fer greinargerð frá RML um breytingarnar en Hestafréttir munu fjalla nánar um þessi mál á næstunni:

Ný vinnuregla við kynbótadóma
Ný vinnuregla við kynbótadóma tekur gildi í vor og á hún við dóma á vilja og geðslagi en frá og með vorinu verður bæði hægt að hækka og lækka einkunnir fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningum. Þetta er að sjálfsögðu eini eiginleiki reiðhestskostanna sem þetta á við en annars eru einkunnir einungis til hækkunar á yfirlitssýningum. Hvað varðar lækkun á einkunn fyrir vilja og geðslag er dómurum það leyfilegt ef hesturinn sýnir augljós merki um óþjálni, ofríki, spennu eða viðkvæmni. Þessi breyting var samþykkt á ræktunarleiðtogafundi FEIF landanna nú í febrúar en sjálfsagt þykir að hafa þessa heimild ef hesturinn sýnir neikvæða þætti þessa eiginleika sem ekki komu fram við sýningu í dómi þar sem hann var einn í brautinni. Enda er íslenska hestinum riðið bæði einum og í samreið. Er þessi breyting gerð til að tryggja betur að einkunnir fyrir vilja og geðslag endurspegli frammistöðu hestsins í gegnum alla sýninguna og er því mati á þessum eiginleika ekki lokið fyrr en að yfirlitssýningu lokinni.

Þá er er áfram í gildi eftirfarandi vinnuregla sem snýr að vilja og geðslagi:

Til að bæta mat á samstarfsvilja og þjálni skal, fyrir hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag, horft til þess að hrossið sé hægt niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan afmörkunar brautarinnar, þá er 8.0 hámarks einkunn fyrir vilja og geðslag. Þó má gera undantekningu þegar um sýningu á mjög greiðu stökki og skeiði er að ræða svo fremi að niðurhægingin sé mjúk og átakalaus. Hverfi hross úr sjónsviði dómara eða sýnir mikla óþjálni er 7.0 hámarkseinkunn fyrir vilja og geðslag. Til að hljóta hækkun fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningu þarf að sýna greinilega fram á að hægt sé að hægja hrossið mjúkt og átakalaust niður innan afmörkunar brautarinnar.

Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að gera dómnefndum betur kleift að sjá þegar hrossið er hægt niður í enda brautar og snúið við en það er mikilvægt við mat á þjálni. Ef hrossinu er riðið lengra en afmörkun brautarinnar sjá dómarar ekki niðurhægingar og viðsnúninga nægilega vel og takmarkar því mat á þjálni hestsins. Þá er það að sjálfsögðu merki um óþjálni ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan brautar. Hámarkseinkunn er því sett sem 8.00 sé hrossinu riðið út fyrir afmörkun brautar. Undantekningu má gera á þessari reglu ef hrossinu er riðið til mikilla afkasta á skeiði og stökki. Það er gert til að bjóða afrekshrossum, ungum sem eldri, möguleika á hestvænum niðurhægingum. En það er að því gefnu að hraðinn sé afar mikill og niðurhægingin eigi sér að mestu stað innan brautar. Þá er það merki um þjálan og mikinn vilja ef hægt er að hægja niður á fet á flestum gangtegundum í enda brautar og spinna hrossið upp til afkasta endurtekið í plús og mínus átt hestsins. Það skal því horft til þess ef hinar hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag eru gefnar.

The post Grundvallarbreyting á kynbótadómum: Nú geta hross lækkað á yfirlitssýningum! appeared first on Hestafréttir.is.

Frá: Hestafréttir